Innlent

Ríkissjóður hagnaðist verulega á sölu Baldurs

Fjármálaráðuneytið segir að það hafi ekki geta selt ferjuna Baldur, sem sigldi á Breiðafirði, til annarra en Sæferða ehf. fyrr en eftir 2010 vegna samnings um rekstur skipsins. Hefði ráðuneytið ekki selt skipið hefði verðmæti þess orðið lítið við lok þess tíma.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ráðuneytinu í kjölfar umfjöllunar um sölu ferjunnar í byrjun árs 2006. Þá var Sæferðum seldur Baldur fyrir tæpar 38 milljónir króna en samkvæmt endurskoðun ríkisreiknings var gengið út frá því að um tveimur vikum síðar hefði ferjan verið seld úr landi fyrir tæpar 100 milljónir króna.

Fjármálaráðuneytið segir í tilkynningu sinni að í samningi milli fyrirtækisins Sæferða og Vegagerðarinnar, sem gerður var 2005 um rekstur ferjunnar Baldurs, hafi verið gengið frá því að fyrirtækið sæi um rekstur ferjunnar á tímabilinu 2005 til ársloka 2010. Því hefði ríkið ekki geta selt ferjuna nema í samráði við Sæferðir.

Sæferðir hafi hins vegar óskað eftir því að að kaupa skipið í þeim tilgangi að eiga síðar möguleika á að kaupa nýrra og hentugra skip til siglinganna. „Ferjuleiðin yfir Breiðafjörð hefur átt stöðugt vaxandi vinsældum að fagna sem ferðamannaleið og töldu forsvarsmenn Sæferða ehf. að hið 16 ára gamla skip, Baldur, myndi á engan hátt anna þeirri eftirspurn sem fyrir hendi var, sérstaklega yfir sumartímann. Mikilvægt var talið að leggja ekki stein í götu uppbyggingar ferðaþjónustunnar við Breiðafjörð og ganga því til samninga um sölu á skipinu til Sæferða ehf. Slíkt var einnig í samræmi við stefnu ríkisins að draga sig út úr rekstrinum strax að samningstíma loknum," segir ráðuneytið.

Í ljósi þess að ríkið gat ekki selt ferjuna til annarra aðila en Sæferða ehf. fyrr en eftir 2010 hafi verið ákveðið að sérstaka heimild í reglugerð um um ráðstöfun eigna ríkisins, þar sem heimilað er að víkja frá hefðbundnu söluferli ríkiseigna.

„Hefði ekki komið til sölu skipsins var talið að við lok leigutímans gæti verðmætið orðið lítið vegna aldurs þess og hertra reglna EU um öryggisbúnað farþegaferja. Verðmæti þess við söluna voru talin liggja á bilinu 30-80 milljónir króna. Við mat á skipinu var til þess horft að söluverðmæti færi eftir því hvort kaupandi gæti nýtt sér þann ísklassa sem skipið var hannað fyrir. Í ljósi þess að mikil óvissa var um verðmæti skipsins var samningurinn á þann veg að ríkið fengi, auk söluverðsins, hlutdeild af auknu söluverðmæti ef rekstraraðilar seldu það frá sér á hærra verði," segir ráðuneytið.

„Í ljósi ofangreindra staðreynda og með hagsmuni ferðaþjónustunnar á Breiðafirði í huga var ákveðið í samráði við Vegagerðina og Samgönguráðuneytið að ganga til samninga við Sæferðir ehf. um sölu á ferjunni Baldri.

Með þessari aðferð er ljóst að ríkissjóður hagnaðist verulega á sölu skipsins umfram það sem hefði orðið ef skipið hefði verið selt við lok leigutímans," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×