Innlent

Ekki ástæða til þess að breyta úthlutun á byggðakvóta

MYND/GVA

Sjávarútvegsráðherra sér ekki ástæðu til þess að breyta úthlutun byggðakvóta eins og formaður Framsóknarflokksins lagði til á Alþingi í dag. Þar sakaði formaðurinn ráðherrann um að hafa tekið byggðakvótaúthlutun inn á sitt borð en ráðherra minnti á að formaðurinn hefði verið í ríkisstjórn í fyrra þegar frumvarp um breytingar á úthlutun byggðakvóta var lagt fram og samþykkt.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var upphafsmaður utandagskrárumræðu um úthlutun byggðakvóta. Þar sagði hann ráðherra hafa tekið byggðakvótaúthlutun nánast inn á sitt borð en áður hefði Byggðastofnun sett reglur um úthlutunina.

Benti hann á að Landssamband íslenskra útvegsmanna hefði haft horn í síðu byggðakvótans og viljað hann feigan. Sjávarútvegsráðherra útdeildi nú lífsgæðunum og það gengi hvorki siðferðislega né stjórnsýslulega. Þá gagnrýndi Guðni hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, um að byggðakvóti yrði settur á uppboð og fjármunum af sölu hans yrði úthlutað til sjávarbyggða. Honum hefði misboðið sú umræða.

Sagði Guðni að það hefði reynst vel að fela Byggðastofnun að úthluta byggðakvóta. Úthlutanir hefðu verið til allt að fimm ára í senn og fyrirtæki í sjávarbyggðum hefðu styrkst af þeim sökum. Spurði hann sjávarútvegsráðherra hvort hann vildi viðurkenna að það hefðu verið mistök að flytja byggðakvótann frá Byggðastofnun til ráðuneytis hans.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði sérkennilegt að hlusta á Guðna. Benti hann á að frumvarp um breytingar á úthlutun á byggðakvóta hefði verið lagt fram á síðasta þingi og verið samþykkt rétt fyrir síðustu kosningar. Um hefði verið að ræða stjórnarfrumvarp í ríkisstjórn sem Guðni átti aðild að.

Benti Einar á að málið hefði fengið afar góða umfjöllun og verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þá sagði ráðherra úthlutun byggðakvótans fara eftir efnislegum reglum og með frumvarpinu hefði verið reynt að skerpa framkvæmd laganna og gera þau gagnsærri.

Þannig gætu sveitarfélög og einstaklingar gert ahugasemndir varðandi úthlutun byggðakvótans og taka þyrfti tillit til mismunandi sjónarmiða. Þá andmælti hann því að að um einhvers konar geðþóttaákvörðun ráðherra væri að ræða við úthlutun kvótans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×