Björgunarsveitir á Suðurlandi og suðvesturhorninu hafa haft í nógu að snúast í morgun við að aðstoða fólk í hvassviðri og ofankomu.
Björgunarsveitir Árborgar, Þorlákshafnar og í Hveragerði hafa allar verið á ferðinni á tveimur bílum hver að aðstoða fólk sem hefur fest bíla sína, bæði í grennd við bæina og á Hellisheiði. Nú er ófætt um Hellisheiði, á Sandskeiði og í Þrengslum og á mörgum leiðum á Suðurlandsundirlendinu er þungfært.
Þá hafa björgunarsveitir á Akranesi og í Borgarnesi sinnt sams konar útköllum. Enn fremur hafa sveitir á Suðurnesjum haft í nógu að snúast og er Reykjanesbrautin nú lokuð.
Í Reykjavík hafa björgunarsveitir einnig sinnt bílum sem fest hafa í sköflum og þá voru sveitir einnig kallaðar út laust fyrir klukkan níu þar sem þakplötur voru farnar að fjúka í Ölduselsskóla í Breiðholti.
Bílvelta varð í Ártúnsbrekkunni fyrir um stundarfjórðungi síðan. Ekki er vitað hve margir voru í bifreiðinni en sem betur fer slasaðist enginn, að sögn lögreglu. Slökkviliðið segir að mikið sé um minniháttar óhöpp í umferðinni þessa stundina og eiga sjúkrabifreiðar erfitt með að komast leiðar sinnar vegna ófærðar og bíla sem sitja fastir á götunum.
Vegagerðin segir ekkert ferðaveður á Suðurlandi, Reykjanesi og Vestulandi og bendir á að ófært sé um Bröttubrekku og þungfært á Holtavörðuheiði.
Við þetta má bæta allt millilandaflug liggur niðri að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair. Tvær farþegavélar komu til landsins frá Ameríku í morgun, en önnur þurfti að lenda á Egilsstöðum og hin á Reykjavíkurflugvelli. Vélar sem áttu að fara frá Reykjavíkurflugvelli í morgun bíða þess enn að geta tekið á loft. Að sögn Guðjóns er vonast til að Keflavíkurflugvöllur verði opnaður að nýju innan fárra stunda. Innanlandsflug er að fara af stað en enn er óvíst með flug til Vestmannaeyja.