Innlent

Geir og Ingibjörg hluti af þotuliðinu

MYND/GVA

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra fyrir að nýta sér einkaþotur til þess að fara á fund NATO í Búkarest í dag. Í umræðum um NATO-fundinn á Alþingi í dag sagðist Álfheiður ekki geta orða bundist yfir hinum nýja stíl sem ráðherrar hefðu tileinkað sér.

Sagði hún orðið þotulið hafa veriðnotað um þann hóp manna sem flakkaði á milli landa í einkaþotum og hefði það einkum verðið notað um eigendur slíkra þotna. Nokkrir útrásarmógúlar ættu slíkar þotur og það væri ekki nýtt að þeir byðu vinum sínum í slíkar ferðir. Sagðist hún ekki muna betur en að forseti lýðveldisins hefði þegið far með Roman Abramovich, sem er rússneskur auðkýfingur, til Bretlands.

Spurði Álfheiður hver hefði skutlað ráðherrunum á fundinn, hvað það hefði kostað og hver hefði borgað. Sagðist hún enn fremur myndu krefjast ítarlegra upplýsinga um ferðagleði ráðherra og þann nýja stíl sem þeir hefðu tileinkað sér.

Þess má geta að þotan sem ráðherrarnir fóru í til Búkarest var leigð hjá Icejet og samkvæmt upplýsingum Vísis kostað það sex milljónum króna meira að ferðast með henni en ef ráðherrarnir og fylgdarlið hefðu farið í almennt flug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×