Innlent

Ferðakostnaður og dagpeningar vitna um ráðdeild borgarstjóra

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur í 18 ára tíð sinni í borgarstjórn lagt áherslu á ráðdeild og aðhald og um það vitna ferðakostnaður hans, dagpeningar og annar kostnaður. Þetta kemur fram í bókun borgarstjóra í tengslum við áform um sparnað við yfirstjórn borgarinnar. Minnihlutinn spyr hvort sparnaðaraðgerðir í nefndum og ráðum tengist erfiðleikum nýs meirihluta á dögunum að manna þær.

Eins og fram kom fyrr í dag var samþykkt á fundi borgarráðs tillaga borgarstjóra um að samhliða þriggja ára áætlun sé nauðsynlegt að skoða aðgerðir sem leitt geti til sparnaðar við yfirstjórn borgarinnar. Sérstaklega eigi þetta við um rekstur Ráðhúss Reykjavíkur, kostnað við nefndir og ráð borgarinnar og aðrar leiðir sem færar geti verið án þess að það hafi áhrif á þjónustu við borgarbúa. Var stjórnkerfisnefnd falið að vinna tillögur um sparnaðaraðgerðir.

Við þessa tillögu vildu borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks bóka að það væru fögur fyrirheit að að fara af stað með góðu fordæmi um ráðdeild og sparnað í yfirstjórn borgarinnar. ,,Það vekur hins vegar upp spurningar, hvers vegna borgarstjóri tiltekur sérstaklega rekstur við nefndir og ráð, en ekki í eigin ranni. Lýðræðisleg umræða og ákvörðunartaka í nefndum og ráðum er án efa ekki að ríða baggamuninn í rekstri borgarinnar. Skemmst er að minnast ráðleysis meirihlutans við mönnun í nefndir og því vaknar spurning hvort það sé einstök tilviljun að beita eigi sparnaðarhnífnum þar? Áherslur meirihlutans um miðstýringaráráttu kemur glögglega fram í þriggja ára áætlun og veldur áhyggjum hvort vandræðaganginn eigi að fela bak við luktar dyr," segir í bókuninni.

Í framhaldi af þessu lét borgarstjóri bók að það væri mikilvægt að kjörnir fulltrúar borgarinnar sýndu ráðdeild og aðhald í fjármálum borgarinnar. ,,Borgarstjóri hefur verið í þjónustu borgarbúa sem kjörinn fulltrúi í 18 ár, nú síðast sem borgarstjóri. Allan tímann hefur hann lagt sérstaka áherslu á aðhald og ráðdeild við ráðstöfun almannafjár í þágu kjörinna fulltrúa borgarinnar og vitna útgjöld vegna ferðakostnaðar hans, dagpeninga og annars kostnaðar um það," segir í bókun Ólafs Friðriks Magnússonar borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×