Innlent

Vilhjálmur hafði borgarstjórastólinn af Árna Sigfússyni

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Árni Sigfússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson höfðu komist að samkomulagi þess efnis að Árni tæki við af Davíð Oddssyni þegar hann lét af embætti borgarstjóra árið 1991. Þegar á hólminn var komið hætti Vilhjálmur hins vegar við og því var Markús Örn Antonsson fenginn í starfið.

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu á þriðjudaginn var er saga þessi rakin og í samtali við Vísi staðfestir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, að rétt sé farið með í meginatriðum.

„Í meginatriðum þá var þetta svona," segir Árni en hann vill ekki ræða málið frekar. Í Morgunblaðinu er greint frá því að þegar Davíð hætti hafi þeir Árni og Vilhjálmur haft nákvæmlega jafn mikinn stuðning innan borgarstjórnarinnar, níu fulltrúa hvor. Katrín Fjeldsted gerði sjálf tilkall til oddvitastöðunnar og Davíð ákvað að sitja hjá.

Árni og Vilhjálmur komust síðan að samkomulagi um að Árni yrði borgarstjóri en að Vilhjálmur yrði formaður borgarráðs, en áður hafði tíðkast að borgarstjóri gegndi einnig því embætti. Þessi tilhögun mun hafa verið handsöluð seint um kvöld og ákváðu þeir Árni og Vilhjálmur að mæla sér mót við Davíð klukkan 10 morguninn eftir að því er greint er frá í fréttaskýringu Morgunblaðsins.

Árni átti að hringja í Vilhjálm áður þannig að þeir gætu orðið samferða á fund Davíðs. En morguninn eftir náði Árni ekki í Vilhjálm og ákvað því að fara einn á fund Davíðs í stjórnarráðinu. Þegar Árni kom þangað sagði Davíð honum að Vilhjálmur hefði komið til sín fyrr um morguninn og tilkynnt sér að ekkert samkomulag hefði náðst. Þetta varð til þess að Davíð ákvað að fá Markús Örn Antonsson í starfið.

Vísir náði tali af Árna Sigfússyni sem staddur er í fríi erlendis og bar söguna undir hann. „Þetta er svona í áttina að því sem þar gerðist en ég vil ekki fjalla frekar um það. Í meginatriðum var þetta svona," segir Árni og bætir við: „Þetta er bara liðið og ég ætla ekkert að fara að dvelja við það eða rifja upp í sögulegu samhengi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×