Innlent

Guðrún Katrín fékk enga sérmeðferð

Gunnar Reynir Valþórsson. skrifar
Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrrverandi forsetafrú.
Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrrverandi forsetafrú.

„Þetta er á einhverjum miskilngi byggt hjá Matthíasi," segir Páll Torfi Önundarson læknir, sem annaðist Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur forsetafrú í veikindum hennar á sínum tíma.

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir frá því í dagbókarfærslum sínum að reikningur vegna meðferðar Guðrúnar Katrínar sem hún gekkst undir í Bandaríkjunum hafi valdið uppnámi á stjórnarheimilinu.

Það hefur Matthías eftir Davíð Oddsyni sem er sagður hafa haft miklar áhyggjur af því hver ætti að borga reikninginn. Páll Torfi segir í samtali við Vísi að Guðrún Katrín hafi ekki notið neinnar sérmeðferðar heldur hafi mál hennar farið sína leið hjá Tryggingastofnun eins og önnur mál af þessu tagi.

„Guðrún Katrín greindist með bráðahvítblæði og síðan tók það sig upp aftur," segir Páll Torfi. „Þegar fyrstu merki komu um það lá ljóst fyrir að það myndi ekkert geta bjargað henni annað en beinmergsskipti. Hún gat fengið beinmerg eða blóð hjá systur sinni þannig að það var ákveðið að gera það."

Páll Torfi segir, að á þessum tíma hafi krabbameinssjúklingar ýmist verið sendir til Svíþjóðar eða til Bandaríkjanna. „Þar sem þetta var talið vera áhættusöm aðgerð í ljósi þess að hún var í efri aldurskantinum til að þola meðferð af þessu tagi var ákveðið að senda hana til Washington ríkis, á Fred Hutchinson Cancer Research Center í Seattle. Þeir eru frumkvöðlar í beinmergsskiptum í heiminum og yfirmaðurinn þar fékk meðal annars Nóbelsverðlaunin fyrir nokkrum árum."

Guðrún Katrín fer síðan utan en það var gert eftir að öll tilskilin leyfi höfðu verið fengin hjá Tryggingastofnun eins og venja er með alla Íslendinga að sögn Páls Torfa. „Það er send umsókn í siglinganefnd Tryggingastofnunar, eins og hún er kölluð, en í henni sitja læknar sem meta það hvort að íslenskir skattborgar eigi að borga fyrir læknismeðferð erlendis. Þetta var samþykkt og hún fer síðan utan."







Mistök að senda reikning í sendiráð

Páll segir að mistök af hálfu spítalans hafi síðan gert það að verkum að reikningurinn var sendur á sendiráðið í Washington en ekki beint til Tryggingastofnunar. „Þetta er mjög dýr meðferð og hún varð dýrari í tilfelli Guðrúnar Katrínar, vegna þess að hún fékk mjög illskæða lungnabólgu, lenti á gjörgæsludeild og varð mjög veik af því mjög lengi. Því hækkaði þessi reikningur," segir Páll og þvertekur fyrir að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað eins og lesa má út úr dagbókarfærslu Matthíasar.

„Þetta var allt saman með eðlilegu samþykki, nákvæmlega eins og við gerum fyrir Pétur og Pál. Guðrún Katrín fékk ekki neina sérstaka VIP meðferð umfram aðra. Allir Íslendingar eiga rétt samkvæmt landslögum, sem þessir ágætu herrar hafa sett á Alþingi, á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á í heiminum. Hún fékk þá meðferð sannanlega en það eru aðrir Íslendingar að fá líka sem eru í sambærilegri stöðu," segir Páll Torfi.

Hann segir að læknar hér á landi hafi komist að þeirri niðurstöðu að meðferð af þessu tagi væri það eina sem gæti bjargað lífi hennar. „Og það munaði engu að hún lifði þetta af, því meðferðin gekk mjög vel, en síðan lendir hún í þessu bakslagi þegar hún fær lungnabólgu," segir Páll Torfi Önundarson að lokum og bætir við að þótt fimmtán milljónir fyrir læknismeðferð sé vissulega há upphæð sé það alls ekkert einsdæmi, ekki einu sinni á þeim árum sem þarna um ræðir.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir lést 12. október 1998.






Tengdar fréttir

Jón Baldvin man eftir reikningnum

Jón Baldvin Hannibalsson var sendiherra í Washington þegar Guðrún Katrín Þorbergsdóttir leitaði sér lækninga í Seattle í Bandaríkjunum. Hann segist muna eftir því að sendiráðinu hafi borist reikningur vegna læknismeðferðar Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar. Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vitnar í dagbókarfærslu sinni frá árinu 1998 í samtal sem hann átti við Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra. Davíð segir Matthíasi frá því að sendiráðinu í Washington hafi borist reikningur að upphæð fimmtán milljónir króna vegna læknismeðferðar Guðrúna Katrínar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×