Fótbolti

Tottenham áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berbatov skorar úr vítinu í kvöld.
Berbatov skorar úr vítinu í kvöld. Nordic Photos / AFP

Tottenham tryggði sér í kvöld sæti í 32-úrslitum UEFA-bikarkeppninnar. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Anderlecht á útivelli.

Bart Goor kom Anderlecht yfir á 68. mínútu en Dimitar Berbatov jafnaði metin úr umdeildri vítaspyrnu aðeins þremur mínútum síðar.

Paul Robinson átti góðan leik í marki Tottenham og forðaði liðinu frá tapi.

Gavin McCann skoraði sigurmark Bolton í Belgrad á 45. mínútu. Liðið er nú búið að leika sína leiki í riðlakeppninni og er á toppi riðilsins með sex stig.

Aris og Bayern München koma næst með fimm stig en mætast í lokaumferðinni. Braga frá Portúgal er í fjórða sæti með þrjú stig en Rauða stjarnan á botninum með ekker stig.

Líkurnar eru því góðar á því að Bolton komist áfram í næstu umferð keppninnar.

Ólafur Ingi Skúlason lék fyrstu 85 mínúturnar þegar Helsingborg tapaði fyrir Bordeaux á útivelli, 2-1. Henrik Larsson skoraði mark Svíanna.

Bæði lið eru komin áfram í næstu umferð og Bordeaux tryggði sér toppsæti riðilsins með sigrinum í kvöld.

Panionios og Galatasaray berjast um þriðja sæti riðilsins. Panionios vann í kvöld 1-0 sigur á Austria Vín á útivelli en síðarnefnda liðið er án stiga á botni riðilsins.

Að síðustu unnu Leverkusen og Spartak Moskva 1-0 sigra í kvöld, á Spörtu Prag og Zürich. Spartak er á toppi riðilsins með sjö stig, Zürich og Leverkusen eru með sex. Þessi þrjú lið eru komin áfram upp úr riðlinum en óljóst er hver lokastaða riðilsins verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×