Innlent

Fundað um tillögur til lausnar manneklu

MYND/Vilhelm

Nú stendur yfir aukafundur í borgarráði þar sem afgreiða á tillögu nýja meirihlutans um að leggja 796 milljónir krónar í að leysa manneklu á leikskólum, í grunnskólum, á frístundaheimilum og í þjónustu við aldraða í borginni.

Meðal tillagna nýja meirihlutans er að samræma hlunnindi starfsmanna borgarinnar frá og með áramótum, veita 20 milljónir króna í ár og 180 á næsta ári til að umbuna starfsmönnum á stofnunum sem glíma við undirmönnun og að greiða starfsmönnum leikskóla og hjúkrunarheimila sem skylt er að matast með nemendum og öldruðum hærri laun.

Rúmlega fimm hundruð börn eru enn á biðlista eftir plássi á frístundaheimili samkvæmt nýjustu tölum en tekið skal fram að umsóknir um dvöl á frístundaheimili voru 400 fleiri í ár en í fyrra.

Nýjustu tölur um mannekluna á leikskólum borgarinnar liggja ekki fyrir en samkvæmt tölum frá því í byrjun mánaðarins átti eftir að ráða í tæplega 150 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, þar af 116 stöðugildi leikskólakennara. 213 börn biðu þá eftir leikskólaplássi og aðeins 30 leikskólar af 81 voru fullmannaðir. Flesta vantaði í leikskóla í Árbæ og Grafarholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×