Innlent

Hálf milljón í reiðufé fannst við húsleit

MYND/Völundur

Hálf milljón króna í reiðufé var meðal þess sem lögreglan fann í húsleit í borginni í tengslum við handtöku á litháísku þjófagengi fyrr í vikunni.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir þremur mannanna sem staðfestir voru í Hæstarétti í dag. Alls voru sjö manns úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag og kærðu þrír þeirra úrskurðina til Hæstaréttar sem staðfesti þá í dag.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að mennirnir hafi búið í íbúðinni þar sem húsleitin var gerð. Þar var lagt hald á marga muni, þar á meðal fatnað, snyrtivöru og ýmsan tæknibúnað auk peninganna. Telur lögregla að munirnir séu þýfi og kveðst hafa tengt hluta munanna við þjófnaði sem tilkynntir hafi verið í verslunum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum.

Þá kemur fram í úrskurði Hæstaréttar að enginn mannanna hafi játað á sig þjófnað en þeim hefur verið haldið aðskildum til þess að þeir geti ekki samræmt frásagnir sínar.

Sjö aðrir Litháar voru handteknir í annarri íbúð í bænum vegna málsins og voru tveir þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald en fjórir í farbann. Fimmtándi maðurinn hefur verið yfirheyrður í dag en ekki liggur fyrir hvort farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×