Innlent

Borgarstarfsmenn sitja ekki við sama borð varðandi yfirvinnugreiðslur

MYND/Valli

Hlutfall yfirvinnugreiðslna af heildarlaunagreiðslum á leikskólasviði borgarinnar er átta prósent, sem er 13 prósentustigum minna en meðaltal borgarinnar í heild. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Vinstri - grænna í leikskólaráði um heildarlaunakostnað fagsviða borgarinnar og hvernig hann skiptist niður í dag- og yfirvinnu.

Fram kemur í tilkynningu frá Vinstri - grænum að hlutfall yfirvinnugreiðslna af heildarlaunum sé hæst 36 prósent hjá framkvæmdasviði og íþrótta- og tómstundasviði. Þetta sýni greinilega að ekki sitji allt starfsfólk borgarinnar við sama borð hvað aðgang að yfirvinnugreiðslum varði.

Vinstri - græn segja sjálfsagt ýmsar skýringar á þessum tölum og hyggjast fulltrúar flokksins í borgarstjórn óska eftir frekari sundurliðun á launagreiðslum til starfsmanna borgarinnar á næstu dögum.

„Upplýsingar um launakjör borgarstarfsfólks eru nauðsynlegt tæki til að leysa úr þeim vanda sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir," segir í tilkynningu Vinstri - grænna.

„Að sama skapi er mikilvægt að skoða fjármál borgarinnar í heild sinni og setja þær upphæðir sem hér um ræðir í samhengi. Ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um 2,6 milljarða hlutafjáraukningu í Reykjavík Energy Invest í gær samsvarar t.a.m. heildarlaunagreiðslum á Leikskólasviði fyrstu 7 mánuði ársins.„




Fleiri fréttir

Sjá meira


×