Innlent

Fagnar húsleit hjá Lyfjum og heilsu

Lyf og heilsa hefur vísvitandi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á lyfjamarkaði á Akranesi að mati eiganda Apóteks Vesturlands. Hann lagði inn kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í sumar vegna málsins. Hann segist fagna þeirri húsleit sem Samkeppniseftirlitið gerði á skrifstofu Lyfja og heilsu í morgun.

„Áður en ég opnaði mitt apótek í sumar þá lækkaði Lyf og heilsa lyfjaverð hjá sér," sagði Ólafur Adolfsson, lyfjafræðingur og eigandi Apóteks Vesturlands, í samtali við Vísi. „Því er það ekki rétt að þeir hafi verið að bregðast við lágu lyfjaverði hjá mér."

Í yfirlýsingu sem Guðni B. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, sendi frá sér í dag er því vísað á bug að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á Akranesi. Þar segir ennfremur að Lyf og heilsa hafi ákveðið að lækka lyfjaverð hjá sér til að bregðast við samkeppni frá Apóteki Vesturlands sem meðal annars lagði áherslu á lágt lyfjaverð.

Þetta segir Ólafur að sé hrein og klár fölsun af hálfu framkvæmdastjóra Lyfja og heilsu og gert til að villa um fyrir fólki. „Ég auglýsti aldrei að ég myndi leggja áherslu á lágt lyfjaverð. Það sem ég lagði áherslu á var að selja lyf á sanngjörnu verði. Staðreyndin er sú að Lyf og heilsa lækkaði lyfjaverð hjá sér áður en þeir höfðu séð hvað ég ætlaði að leggja áherslu á."

Að sögn Ólafs lækkaði Lyf og heilsa stórlega verð á yfir 40 af algengustu lyfjunum sem ávísað er á Akranesi. Þá lækkaði Lyf og heilsa einnig verð á öðrum lyfjum. „Þeir vita að ég er einyrkji og vildu tryggja að það yrði engin framlegð af þeim lyfjum sem eru til sölu hjá mér. Leikurinn var ekki til annars gerður en að bola mér útaf markaðinum áður en ég næði fótfestu."

Ólafur lagði fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í sumar þar sem hann taldi Lyf og heilsu misnota markaðsráðandi stöðu sína. „Ég get því ekki annað en fagnað því að Samkeppniseftirlitið skuli bregðast við kvörtun minni."


Tengdar fréttir

Húsleit hjá Lyfjum og heilsu

Fulltrúar frá Samkeppniseftirlitinu gerðu í morgun húsleit á skrifstofum apótekakeðjunnar Lyf og heilsa. Þetta staðfesti Lyf og heilsa.

Býður vesturbæingum upp á heimsendingar með lyf

Apótek Vesturlands býður vesturbæingum í Reykjavík upp á heimsendingar á lyfjum í auglýsingu sem apótekið birti í Vesturbæjarblaðinu í dag. Í auglýsingunni er fullyrt að Lyf og heilsa láti vesturbæinga niðurgreiða lyf vegna samkeppni á Akranesi. Eigandi Apóteks Vesturlands segist geta boðið vesturbæingum upp á allt að 76 prósent lægra lyfjaverð.

Gruna Lyf og heilsu um að misnota markaðsráðandi stöðu

Grunur leikur á að lyfjaverslunarkeðjan Lyf og heilsa hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á Akranesi í samkeppni við Apótek Vesturlands. Samkeppniseftirlitið gerði húsleit á skrifstofum fyrirtækisins í morgun. Um eðlilega samkeppni að ræða segir í yfirlýsingu frá Lyfjum og heilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×