Innlent

Íslendingar kaupa þrjú hótel og veitingastaði í Kaupmannahöfn

Sighvatur Jónsson skrifar
Sighvatur Jónsson við Hotel D'angleterre í Kaupmannahöfn, sem Íslendingar hafa keypt.
Sighvatur Jónsson við Hotel D'angleterre í Kaupmannahöfn, sem Íslendingar hafa keypt. MYND/Stöð 2

Þrjú þekktustu hótel Kaupmannahafnar eru nú í eigu Íslendinga. Fjárfestingarfélagið Nordic Partners hefur meðal annars keypt hið sögufræga hótel D'Anglaterre.

Í dag bættust hótelin þrjú á lista yfir íslenskar eignir í gömlu höfuðborg Íslands. Þetta eru hin rótgrónu hótel D'Angleterre við Kongens Nytorv og Kong Frederik við Ráðhústorgið, ásamt hinu nýstárlega Hotel Front, sem er gegnt nýja óperuhúsinu rétt hjá Nyhavn. Með í kaupunum fylgja veitingastaðir hótelanna, og veitingastaðurinn Copenhagen Corner við Ráðhústorgið.

Íslenska fjárfestingarfélagið Nordic Partners kaupir af fjölskyldufyrirtækinu Remmen Hotels, sem hefur verið í hótelrekstri í Kaupmannahöfn í langan tíma. Ævintýri Nordic Partners hófst fyrir áratug með fjárfestingum í tengslum við einkavæðingu í Lettlandi. Félagið á eignir víðar í Austur-Evrópu og stendur meðal annars í flugrekstri og timburframleiðslu. Á Íslandi rekur það verslanirnar Gallerí Kjöt, Fiskisögu og Ostabúðina.

Stjórnarformaður Nordic Partners er Jón Þór Hjaltason. Forstjóri og aðaleigandi er Gísli Reynisson. Framkvæmdastjóri á Íslandi er Bjarni Gunnarsson og í Lettlandi Daumants Vitols.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×