Innlent

Íslenskt vatn tilnefnt til verðlauna vegna sjálfbærni

Stutt er síðan Jón Ólafsson tók skóflustungu að nýrri vatnsverksmiðju í Þorlákshöfn.
Stutt er síðan Jón Ólafsson tók skóflustungu að nýrri vatnsverksmiðju í Þorlákshöfn. MYND/Sunnlenska

Vatn frá Icelandic Glacial, sem er í eigu Jóns Ólafssonar, keppir í lokaúrslitum um þekktustu verðlaun sem veitt eru fyrir vatnsframleiðslu í heiminum. Verðlaunin nefnast BottledWaterWorld Awards og eftir því sem fram kemur í tilkynningu etur Icelandic Glacial kappi við Coca Cola og Danone, sem framleiðir hið fræga Evian-vatn, um verðlaunin.

Þau keppa um verðlaun fyrir besta framlag í sjálfbærni en tilkynnt verður um sigurvegarann á alþjóðlegri ráðstefnu vatnsframleiðenda í Mexíkóborg á fimmtudag. Umhverfismál og sjálfbærni eru meginþemu ráðstefnunnar í Mexíkó að þessu sinni og nýtur þessi verðlaunaflokkur því sérstakrar athygli.

„Þessi tilnefning er sérstaklega mikilvæg fyrir markaðssetningu okkar í Bandaríkjunum, sem er nýhafin. Það er ekki á hverjum degi sem lítið íslenskt vörumerki stendur jafnfætis risum á borð við Coca Cola og Danone, sem meðal annars framleiðir Evian, sem er þekktasti vatnsdrykkur í heimi, og eftir því er tekið. Gríðarleg umhverfisvakning á sér stað í þessum geira og þeir sem skara framúr í sjálfbærni, ekki síst hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, vekja mikla athygli," er haft eftir Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni Icelandic Water Holdings, sem framleiðir Icelandic Glacial.

 

Eins og kunnugt er hyggst félagið reisa vatnsverksmiðju í Þorlákshöfn á næstu misserum og hlaut félagið í júní síðastliðnum vottun frá CarbonNeutral samtökunum í Bandaríkjunum fyrir áætlun um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar. Þar á meðal er notkun vistvænna orkugjafa á borð við jarðvarma og rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum í verksmiðjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×