Innlent

Einungis átta prósent vilja leggja niður Íbúðalánasjóð

Aðeins átta prósent fasteignakaupenda vilja að bankarnir taki alfarið við húsnæðislánum og að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent Gallup.

Bankarnir hafa á undanförnum árum rennt hýru auga til fasteignalánamarkaðarins og viljað Íbúðalánasjóð feigan. Löngun þeirra hefur fengið hljómgrunn hjá sjálfstæðismönnum og var jafnvel ýjað að því í tíð fyrri ríkisstjórnar að kreppa hefði hlaupið í stjórnarsamstarfið vegna andstöðu Framsóknarmanna við breytingar á sjóðinum.

Ný könnun Capacents sýnir að 82,5 prósent fólks sem hefur nýlega keypt húsnæði vill að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd sem er sambærileg niðurstaða og úr síðustu könnun fyrir tæpu ári. 9,2 prósent telja að sjóðurinn eigi að vera heildsala.

Þrír af hverjum fjórum fasteignakaupendum eru jákvæðir gagnvart Íbúðalánasjóði og aðeins 7 prósent eru neikvæðir. Flestir vilja að hámarkshlutfall lána sé 90 prósent af kaupverði en að meðaltali vildu menn að verðtryggð lán væru 81 prósent af kaupverði. Tæplega helmingur aðspurðra hafði tekið lán hjá Íbúðalánasjóði.

Úrtak könnunarinnar var fólk sem keypti fasteign í febrúar til júní á þessu ári. Svarhlutfall var 56 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×