Innlent

Meirihluti vill taka upp evruna

MYND/AP

Nærri helmingur Íslendinga eða 48 prósent eru hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins í síðasta mánuði. Þá vilja 53 prósent taka upp evruna.

Fram kemur á vef Samtaka iðnaðarins að þeim sem vilji aðild að ESB hafi fjölgað um fimm prósentustig frá því í febrúar þegar samtökin gerðu sams konar rannsókn. Þriðjungur er hins vegar andvígur aðild að sambandinu.

Þá hefur orðið viðsnúningur á afstöðu fólks til þess hvort taka eigi upp evruna í stað krónunnar á einu og hálfu ári. Í febrúar 2006 voru 48 prósent andvíg því að taka upp evru og 42 prósent hlynnt en nú eru 53 prósent hlynnt því en 37 prósent andvíg.

Meirihluti stuðningsmanna stjórnarflokkanna vill aðildarviðræður

Þá leiðir könnunin í ljós að meirihluti er fyrir aðildarviðræðum við ESB í fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum. Tveir þriðju framsóknarmanna eru á þeirri skoðun, 80 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 52 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna.

Segja Samtök iðnaðarins merkilegt í ljósi þessa að ekki skuli um það rætt í alvöru að undirbúa slíkar viðræður á stjórnarheimilinu. „Það er ekki blöðum um það að fletta að meirhluti þeirra sem studdu ríkisstjórnarflokkana tvo til valda eru því hlynntir, sama gildir um meirihluta þeirra sem kosið hafa sitjandi þing. Er ekki rétt að ríkisstjórn og þing svari þessu kalli kjósenda sinna?," spyrja Samtök iðnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×