Innlent

Gera kröfu um rannsóknarnefnd vegna Gjástykkis

Þrenn náttúruverndarsamtök kröfðust þess á fundi umhverfisnefndar Alþingis í morgun að þingið skipaði rannsóknarnefnd um hvernig staðið var að útgáfu rannsóknarleyfis til Landsvirkjunar vegna Gjástykkis tveimur dögum fyrir kosningarnar í vor. Iðnaðarnefnd Alþingis mun einnig fjalla um málið í dag.

Átökin um álvers- og virkjanaframkvæmdir halda áfram. Að þessu sinni er tekist á um áform Landsvirkjunar til að afla orku til fyrirhugaðs álvers við Húsavík. Tvær þingnefndir, umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd, nota daginn til að fjalla Gjástykki norðan Kröfluvirkjunar að ósk náttúruverndarsamtaka og þingmanna Vinstri grænna.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona Vinstri grænna, sagði fyrir fund umhverfisnefndar í morgun að fram að þeim tíma sem rannsóknarleyfið var gefið hefði Landsvirkjun verið að gera yfirborðsrannsóknir að því er virtist í leyfisleysi. Það þyrfti að fá úr því skorið hvort framkvæmdirnar væru í leyfisleysi og hvort það rask sem yrði á svæðinu væri ásættanlegt til að mynda út frá umhverfissjónarmiðum.

Fulltrúar Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar og Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi báru sameiginlega fram kröfu um sérstaka rannsóknarnefnd á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×