Innlent

Vinnumálastofnun með allt niður um sig

MYND/Vilhelm

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafniðnaðarsamband Íslands, sakar Vinnumálastofnun um að vera með allt niður um sig og að senda aumkunarverð skilaboð til fyrirtækja um að það sé í lagi að brjóta alla samninga á launamönnum. Tilefni yfirlýsingar Guðmundar eru þau tíðindi að Vinnumálastofnun veitti undirverktökum Arnarfells á Kárahnjúkum frest í gær til þess að koma sínum málum í lag en í ljós kom ekki voru allir starfsmenn verktanna skráðir rétt.

Guðmundur bendir á að á undanförnum árum hafi trúnaðarmenn launamanna og starfsmenn stéttarfélaga ítrekað kvartað undan því að fyrirtæki brjóta lög og kjarasamninga. Hins vegar hafi opinberar eftirlitsstofanir brugðist seint eða jafnvel alls ekki við. „Ítrekað hefur komið fyrir þegar fyrirtæki á Kárahnjúkasvæðinu hafa ekki uppfyllt reglugerðir um aðbúnað og kannski fengið á sig dagsektir eftir langt þref trúnaðarmanna starfsmanna, þá hafa þær ætíð verið felldar niður," segir í yfirlýsingunni Guðmundar.

Hafi fengið símtöl frá mikilsmetandi mönnum

Þá er bent á að undanfarnar vikur hafi trúnaðarmenn starfsmanna ítrekað krafist þess að fá upplýsingar um kjör starfsmanna undirverktaka Arnarfells. Fyrirtækin hafi virt þær beiðnir að vettugi. „Þrátt fyrir kvartanir og kröfur um viðbrögð snéri Vinnumálastofnun ætíð bakinu í viðmælendur, svo kom eftir 6 vikur að Vinnumálastofnun gat ekki annað en tekið upp síman og svarað. Upphófst venjubundinn fyrirsláttur við starfsmenn stéttartfélaganna og undanlátssemi gagnvart fyrirtækjunum. Vinnumálastofnun varð sér ítrekað til minnkunar og athlægi, sendi lögregluna á stað og greinilega fengu starfsmenn Vinnumálastofnunar einhver harðorð símtöl frá mikilsmetandi mönnum þannig að rokið var til og lögreglan kölluð tilbaka," segir í yfirlýsingu Guðmundar.

Svo hafi ASÍ sent frá sér mjög harðorða ályktun og menn hafi farið að undirbúa vinnustöðvun en þá hafi forstjóri Vinnumálastofnunar sest að samningum við Arnarfell. Guðmundur spyr hvað um hafi verið að semja og sakar Vinnumálastofnun um að snúast gegn launamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×