Innlent

Brýnt að grípa til aðgerða í Bessastaðabrekku

Forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa telur brýnt að grípa til aðgerða til að auka umferðaröryggi um Bessastaðabrekku. Þar valt í gær rútubíll með rúmlega 30 manns um borð og slösuðust margir.

Vörubíll með ruslagám valt í sömu beygju í fyrra, eftir að bremsur biluðu, og þótti kraftaverk að ökumaður skildi sleppa lifandi. Annar vörubíll valt þar líka í hálku í fyrra og slapp ökumaður lítið meiddur. Hátt í tveggja kílómetra aflíðandi halli er niður að beygjunni og segir Ágúst Mogensen forstöðumaður rannsóknarnefndarinnar, sem var á vettvangi í dag, að annaðhvort verði að setja aflíðandi ramp út úr beygjunni sem sveigi upp í hlíðina til að bílar geti hægt á sér, eða að gera öryggissvæði með gljúpum jarðvegi út frá beygjunni.

Vegrið dugi ekki við svona aðstæður og þegar sé búið að ræða við Vegagerðina um málið. Allt bendir til að bremsur rútubílsins hafi gefið sig , enda eru engin bremsuför eftir hana síðasta spölinn að beygjunni, en hinsvegar liggur ekki fyrir af hverju þær biluðu. Tveir farþegar slösuðust mest og liggja þeir enn á Landsspítalanum, en flestir hinna sex, sem lagðir voru á sjúkrahús eru útskrifaðir og margir hinna eru komnir til vinnu á ný. Það fór því betur en á horfðist, að mati lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×