Innlent

Fangageymslur fylltust í nótt

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Fangageymslur fylltust á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Meðal þess sem bókað er í dagbók lögreglunnar er að dyravörður á Gauki á Stöng var laminn með glasi í andltið. Hópslagsmál brutust út á Sportbarnum í Hafnarfirði og maður varð fyrir árás í Hlégarði í Mosfellsbæ.

Dyravörður á Gauki á stöng var laminn í andlitið með glasi þegar hann var að vísa manni út af staðnum. Dyravörðurinn skarst í andliti. Árásarmaðurinn var handtekinn af lögreglu og verður yfirheyrður vegna málsins.

Einn var fluttur á slysadeild eftir hópslagsmál sem brutust út á Sportbarnum við Dalshraun í Hafnarfirði á fjórða tímanum í nótt. Hann er ekki talinn mikið slasaður.

Lögreglan kom að alblóðugum manni sem var á göngu við Bíldshöfða í nótt. Maðurinn var fluttur á slysadeild en ekki hafa fengist upplýsingar um hvað gerðist þar sem maðurinn talar ekki íslensku. Lögreglan gerir ráð fyrir að tekin verði af honum skýrsla í dag með aðstoð túlks.

Maður var sleginn í höfuðið með flösku í Hlégarði í nótt. Fjöldi lögreglumanna var kallaður á staðinn vegna óláta á dansleik sem þar fór fram. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var enginn handtekinn á staðnum.

Lögreglan fékk tilkynningu um ölvaðan mann sem stökk út úr bifreið í Lækjargötunni í nótt og réðst á gangandi vegfaranda með kylfu og sló hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×