Innlent

Bati á mörkuðum og krónan að styrkjast á ný

Fjármálaskýrendur segja að batinn á mörkuðunum í Bandaríkjunum gær gefi fyrirheit um að það versta sé yfirstaðið. Þó sé of snemmt að fagna. Sala á íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum hefur aukist á ný samkvæmt nýjustu tölum sem hefur slegið talsvert á áhyggjur af húsnæðiskreppunni þar í landi.

Í júlí var söluaukning hartnær þrjú prósent á íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum. Þessar tölur vekja vonir manna um að ástand markaðarins sé ekki eins slæmt og vísbendingar gáfu til kynna, en ókyrrðin vestan hafs náði alla leið hingað og olli sveiflum á hlutabréfum hér.

Úrvalsvísitalan hafði verið á uppleið allt árið en tók svo dýfu í þessum mánuði. Þótt vísitalan sé nú aftur á uppleið segir Jón Bjarki Bentsson, hjá greiningardeild Glitnis, að of snemmt sé að meta það svo að öll vandræði séu að baki, en fyrirheitin séu vissulega góð.

Í Bandaríkjunum varð viðsnúningur á hlutabréfamarkaði í kjölfar fregnanna um hraustlegri fasteignamarkað. Helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu lítillega vestan hafs í gær.

Jón Bjarki Bentsson segir að batinn á mörkuðum nú sé vissulega vísbending um bata í hagkerfinu en ekki sé ástæða til að fagna enn.

Íslenska krónan hefur sveiflast mikið undanfarið. Krónan íslenska veiktist verulega um leið og ókyrrð varð á mörkuðum vestan hafs.

Hjón sem fóru til Spánar í byrjun júní og keyptu þúsund evrur til að verja í fríinu sínu greiddu þá áttatíu og tvö þúsund krónur fyrir evrurnar.

Sama ferðafé í evrum kostaði níutíu og tvö þúsund krónur um miðjan ágúst. Í gær hefðu hjónin hins vegar getað ferðast fyrir nokkuð lægri upphæð, því þau hefðu greitt áttatíu og átta þúsund þúsund krónur fyrir evrurnar sínar, því krónan er aftur tekinn að styrkjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×