Innlent

Kanna slóð upp að Hrútsfjallstindum

MYND/Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn kanna nú hvort slóð, sem þeir fundu á Svínafellsjöklim og liggur upp að Hrútsfjallstindum sé eftir Þjóðverjana tvo sem leitað hefur verið að við Vatnajökul undanfarna daga. Hrútsfjallstindar eru norður af Svínafellsjökli. Að sögn Víðis Reynissonar, fulltrúa Ríkislögreglustjóra á svæðinu, er erfitt að greina hversu gömul slóðin er en ákveðið hafi verið að fylgja henni.

Eins og fram hefur komið eru aðstæður til leitar afar erfiðar þar sem mikið er um sprungur í jöklinum þar sem leitað er. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir nú að leitað sé að vönum fjallaleitarmönnum í björgunarsveitum landsins til þess að leysa þá björgunarsveitarmenn af sem komið hafa að leitinni undanfarna daga. Það sé ekki á færi nema reyndustu manna að fara um leitarsvæðið. Veðurskilyrði hafa verið með ágætum það sem af er degi en nú seinni partinn fór að rigna.

Nokkrir tugir björgunarsveitarmanna hafa tekið þátt í leitinni í dag og að sögn Ólafar verður leitað fram undir myrkur. Haldið verður áfram á morgun, vonandi með töluverðum fjölda en ekki liggur fyrir hversu margir munu koma að leitinni. Aðspurð segir Ólöf enga ákvörðun hafa verið tekna um það að hætta leit eftir tiltekinn tíma hafi mennirnir ekki fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×