Innlent

Lágmarkslaun hækki um að minnsta kosti 30%

Forysta Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði telur að lágmarkslaun verði að minnsta kosti að hækka um 30% í næstu kjarasamningum. Erlendum félagsmönnum hefur fjölgað mikið í Hlíf á undanförnum árum og eru þeir nú um þriðjungur félagsmanna.

Stjórn Hlífar í Hafnarfirði ályktaði í síðustu viku að lágmarkslaun verði hækkuð um að minnsta kosti 30 prósent við gerð kjarasamninga í stað þeirra sem renna út um áramót, en þau eru nú 125 þúsund krónur á mánuði.

Kolbeinn Gunnarsson formaður Hlífar segir stjórn félagsins fyrst og fremst horfa til þess að hækka lægstu launin. Þau hafi dregist veruleg afturúr á undanförnum árum.

Með þessu yrðu lágmarkslaun á bilinu 160 - 170 þúsund. Að auki vill stjórn Hlífar að skattleysismörk hækki í 140 þúsund á samningstímanum og fylgi launaþróun í landinu þar á eftir. Kolbeinn segir að Hlíf sé fyrir sitt leyti tilbúin að semja til allt að fjögurra ára, ef tryggingar verði nægar með tilheyrandi uppsagnarákvæðum.

Kolbeinn segir að mesta hreyfingin sé á fólki í lægst launuðu störfunum og þar sem þau séu greidd sé mesta manneklan. En verulegar breytingar hafa átt sér stað á vinnumarkaðnum undanfarin ár í tengslum við uppsveifluna í efnahagslífinu. Þannig hefur fjöldi erlends vinnuafls á félagaskrá Hlífar tvöfaldast á undanförnum 5-10 árum en þeir eru nú um 30 % félagsmanna.

Eftirspurnin eftir vinnuafli á Íslandi er mikil en nú er um 10% vinnuaflsins útlendingar eða um 20 þúsund manns. Þessi mikla eftirspurn gæti styrkt verkalýðshreyfinguna í kröfugerð sinni. Grétar Þorsteinsson forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir að þessi staða ætti að geta styrkt kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í komandi samningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×