Innlent

Platar sig inn á gamalt fólk og stelur frá því

Lögreglan á Suðurnesjum leitar ungrar konu sem hefur platað sig inn á eldra fólk í Reykjanesbæ og stolið frá því fjármunum. Að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Suðurnesjum, er vitað um tvö tilvik til þessa, í gærkvöld og í morgun.

Stúlkan hafi unnið á þann hátt að hún falist eftir dóti á tombólu og biðji svo um að fá að fara á klósettið hjá viðkomandi. Henni hafi nú í tvígang tekist að stela fjármunum, annars vegar peningum og hins vegar veski með peningum og skilríkjum.

Skúli segir að miðað við lýsingar vitna sé stúlkan um tvítugt og telji lögregla sig hafa greinargóða lýsingu á útliti hennar. „Við sáum okkur knúna til þess að vara við henni. Hún virðist herja á gamalt fólk sem grunar ekkert ljótt um unga fólkið," segir Skúli.

Hann segir lögreglu nú leita stúlkunnar og eru þeir sem geta gefið lögreglu upplýsingar um atvik sem þetta og hver gæti verði hér á ferðinni að hafa samband í gegnum Neyðarlínu 112.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×