Innlent

Söluandvirði kókaíns allt að 70 milljónir króna

Tveir Íslendingar, kona og karlmaður, sitja í gæsluvarðhaldi í Kaupmannahöfn eftir að hafa verið tekin þar með tæp tvö kíló af kókaíni. Söluandvirði þess hér á landi hefði getað numið allt að 70 milljónum króna.

Karmaðurinn er 36 ára og hefur áður gerst brotelgur við fíkniefnalöggjöfina en konan er um tvítugt og hefur ekki áður brotið af sér. Leikur grunur á að hún hafi átt að vera svonefnt burðardýr hingað til lands.

Tilviljun virðist hafa ráðið því að upp um fólkið komst því lögregla hafði af tilviljun afskipti af því í miðborginni. Eftir að lítilræði af efninu fannst á þeim hófst víðtækari eftirgrennslan sem leiddi til þess að kílóin fundust.

Ekki liggur fyrir hvaðan fólkið var að koma með efnið en að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík, leikur grunur á að smygla hefði átt efninu hingað til lands.

Algengt er að drýgja hreint kókaín allt að þrefalt og miðað við markaðsverð á götumarkaði hér má áætla að söluandvirði fyrir slíkt magn um 70 milljónir króna. Þetta er í annað skiptið á þessu ári sem Íslendingar eru teknir erlendis með mikið af kókaíni í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×