Innlent

422 eiga von á sekt fyrir hraðakstur á Hringbraut

MYND/Hilmar

422 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að virða ekki 60 km leyfilegan hámarkshraða á Hringbraut í Reykjavík í gær og fyrradag. Lögregla segir að umrædd vöktun hafi hafist klukkan 15.15 á miðvikudag og lauk henni klukkan 9.50 á fimmtudag. Þessir 422 ökumenn voru því staðnir að verki á um það bil 19 klukkustunda tímabili. Að jafnaði óku bílstjórarnir á 75 km hraða. Sá sem hraðast ók var á 131 kílómetra hraða.

Sjötíu og fimm ökumenn voru mældir á yfir 80 og fjórtán á yfir 90. Fjórir óku á yfir 100 km/klst. Fyrrnefnd myndavél er staðsett á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hringbraut í vestur.

Þeir ökuþórar sem héldu sig fyrir innan 75 kílómetra á klukkustund mega eiga von á 10 þúsund króna sekt, þeir sem óku á yfir 80 fá 20 til 30 þúsund krónur og 1 refsipunkt í ökuferilskrá. Þeir sem óku á yfir 100 kílómetra hraða mega búast við allt frá 60 þúsund króna sekt og fjórum refsipunktum. Sá sem hraðast ók verður hins vegar sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði, fær 110 þúsund í sekt og fær fjóra punkta í ferilskrá sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×