Innlent

Iceland Express hunsar talsmann neytenda

MYND/Vilhelm

Flugfélagið Iceland Express hefur neitað að verða við tilmælum talsmanns neytenda um að neytendur velji sjálfir sérstaklega hvort þeir vilji greiða forfallagjald þegar þeir kaupa flugmiða á Netinu. Talsmaður neytenda segir að aukagjöld samkvæmt forvali feli í sér neikvæða samningsgerð, sem hann segir óheimila.

Í fréttatilkynningu frá Gísla Tryggvasyni, talsmanni neytenda kemur fram, að lögmaður Iceland Express ehf. hafi hafnað tilmælum talsmanns neytenda um að hætt yrði að setja fyrirfram hak í valreit fyrir forfallagjald þegar keyptur er flugmiði hjá fyrirtækinu. „Mælst var til þess í tilmælunum að framvegis yrðu netsíður seljenda flugferða þannig að neytandi þyrfti ekki að taka burt hak í valreit vildi hann ekki greiða forfallagjald til viðbótar við flugmiðaverð. Sama gildir um aðra viðbótarþjónustu sem fyrirtækið vill rukka neytendur aukalega fyrir," segir í tilkynningunni.

„Að mati talsmanns neytenda er sú framsetning sem Iceland Express notast við ekki í samræmi við lög enda felst í henni svonefnd neikvæð samningsgerð gagnvart neytendum," segir á heimasíðu talsmanns neytenda. „Neytanda sem pantar sér flugfar er þannig gert að greiða fyrir annað en það sem hann hefur beinlínis óskað eftir. Neikvæð samningsgerð byggir ranglega á því að þögn feli í sér samþykki og geti stofnað til viðskipta en svo er ekki samkvæmt lögum."

Talsmaður neytenda bendir á að hingað til hafa fyrirtæki farið að tilmælum talsmanns neytenda. „Talsmaður neytenda getur ekki fallist á röksemdir sem nú hafa komið fram í bréfi Iceland Express," segir ennfremur og því bætt við, að í kjölfarið verði ákveðið hvernig brugðist verður við synjun Iceland Express, „enda er neikvæð samningsgerð gagnvart neytendum almennt óheimil að lögum að mati talsmanns neytenda."

„Rétt er að benda á að ekkert er því til fyrirstöðu að Iceland Express breyti skilmálum og bjóði neytendum að falla frá ferð við tilteknar aðstæður enda er meginatriði samningsins frá sjónarhóli neytandans hvaða verð er greitt fyrir hvaða þjónustu," segir á heimasíðu talsmanns neytenda. „Eins og vefsíða Iceland Express er nú sett fram hækkar heildarverð hins vegar miðað við auglýst verð flugferðar ef neytandi velur ekki burt hak í valreit fyrir forfallagjald."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×