Innlent

Unnið að því að senda rannsóknarskip til Austur-Grænlands

Einar K. Guðfinnsson: Sjávarútvegsráðuneytið kannar möguleika á að senda hafrannsóknarskip til Austur-Grænlands.
Einar K. Guðfinnsson: Sjávarútvegsráðuneytið kannar möguleika á að senda hafrannsóknarskip til Austur-Grænlands.

"Við erum að skoða þetta mál mjög alvarlega og vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf," segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra í samtali við Vísi. Eins og fram hefur komið í fréttum hér hefur LÍÚ hvatt til þess að hafrannsóknarskip verði sent hið fyrsta til Austur-Grænlands til að kanna mikið magn af þorski sem þar hefur fundist.

"Við þurfum meðal annars að fá samþykki Grænlendinga fyrir rannsóknarleiðangri á þetta svæði en ég á ekki von á öðru en það fáist," segir Einar

Einar segir ennfremur að honum sé umhugað um að hafa sem best samstarf og samvinnu við Grænlendinga um sjávarútvegsmál og hafi hann því boðið sjávartútvegsráðherra Grænlands í heimsókn til að ræða sameiginleg hagsmunamál þjóðanna á þessum vettvangi.

Fram kemur í máli Einars að Hafrannsóknarstofnun hafi haft áhuga á að senda rannsóknarskip á hafsvæðið milli Íslands og Grænlands eftir að fregnir bárust af mikilli þorskgengd á grálúðusvæðinu vestur af Hampiðjutorginu fyrr í ár. "Og ég er sammála framkvæmdastjóra LÍÚ um nauðsyn þess að þetta svæði verði rannsakað," segir Einar K. Guðfinnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×