Innlent

Helguðu sér land að fornum sið

Hópur nemenda og starfsmanna Háskólans í Reykjavíkur helgaði sér í morgun land að fornum sið á þeim stað þar sem skólinn hefur fengið úthlutað lóð við rætur Öskjuhlíðar. Um leið var tekin fyrsta skóflustungan að nýbyggingu háskólans.

Það var Svafa Grönfeldt, rektor HR, sem afhenti hópnum kyndil og ræsti hópinn. Samkvæmt hinni fornu landsnámsbók Hauksbók mátti kona helga sér land með því að leiða tvævetra kvígu vorlangan dag sólsetra í millum um það land sem numið var en karlmaður fór um landið með eldi sólsetra á milli. Hins vegar var enga kvígu að finna á staðnum og því hlupu bæði karlar og konur um landið með eld. Að lokinni athöfninni ætlaði svo Sjósundfélag HR að standa fyrir sundspretti í Nauthólsvík.

Það var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sem tók fyrstu skóflustunguna að byggingu HR, en húsið verður um 35 þúsund fermetrar að stærð og því ein stærsta bygging höfuðborgarinnar. Búist er við að fyrsta hluta framkvæmda ljúki eftir um tvö ár og að þá verði tilbúin til notkunar aðstaða í um 20.000 fermetrum fyrir tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild. Framkvæmdum á svo að vera alveg lokið haustið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×