Enski boltinn

Foster verður aðalmarkvörður Man. Utd.

Ben Foster verður aðalmarkvörður Man. Utd. á næstu leiktíð.
Ben Foster verður aðalmarkvörður Man. Utd. á næstu leiktíð.

Nokkur götublaðanna í Englandi segja frá því í morgun að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Man. Utd., hafi tilkynnt markverðinum Edwin van der Saar að hann muni verða varamaður fyrir Ben Foster á næstu leiktíð, en Foster snýr þá aftur til Man. Utd. úr láni hjá Watford.

Fullyrt er að þolinmæði Ferguson gagnvart hollenska markverðinum sé á þrotum, en hann þótti gera nokkur klaufaleg mistök í síðustu leikjum tímabilsins og hafa einhverjir sagt að markið sem Didier Drogba skoraði í bikarúrslitaleiknum um helgina hafi verið Van der Saar að kenna, þar sem hann hafi hikað of mikið í útliti sínu.

Óvíst er hversu mikið sannleikskorn er í þessum fréttum en hinn stóri og stæðilegi Van der Saar var sem kunnugt er valinn í lið ársins í ensku deildinni.

Foster þótti standa sig frábærlega fyrir Watford í ár og hefur á skömmum tíma náð að tryggja sér fast sæti í enska landsliðinu. Þriðji markvörður liðsins, Pólverjinn Tomasz Kuszczak, fer líklega á láni til Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×