Fótbolti

Sanchez verður áfram með Norður-Íra

Lawrie Sanchez
Lawrie Sanchez NordicPhotos/GettyImages

Forseti norður-írska knattspyrnusambandsins segist fullviss um að Lawrie Sanchez muni virða samning sinn við sambandið þó hann hafi samþykkt að taka við enska úrvalsdeildarliðinu Fulham til loka leiktíðar. Bresku blöðin greina hinsvegar frá því í dag að Fulham hafi boðið honum að sjöfalda laun hans ef hann samþykki að flytja sig formlega til Lundúna.

Sanchez hefur náð frábærum árangri með landslið Norður-Íra og situr það nú í toppsæti F-riðils okkar Íslendinga í undankeppni EM. Jim Boyce, forseti írska sambandsins, segist hinsvegar ekki reikna með öðru en að Sanchez virði samning sinn.

"Lawrie hefur náð frábærum árangri og það er skiljanlegt að hann sé eftirsóttur fyrir vikið. Fulham stóð rétt að því að koma til okkar og óska eftir þvi að nýta krafta hans fram á sumarið, en ég hef talað við Lawrie og hann ætlar að virða samninginn," sagði forsetinn.

Norður-Írar leika ekki aftur fyrr en í júní og þá verður leiktíðinni lokið hjá Fulham, sem hefur sigið óþægilega nálægt fallsvæðinu á síðustu vikum eftir að hafa ekki náð að vinna í síðustu sjö leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×