Enski boltinn

Wenger sáttur en Roeder brjálaður

Það var hiti í leikmönnum Newcastle og Arsenal í dag.
Það var hiti í leikmönnum Newcastle og Arsenal í dag. MYND/Getty

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er sannfærður um að lærisveinar sínir nái hinu dýrmæta fjórða sæti úrvalsdeildarinnar, sem gefur sæti í Meistaradeildinni, þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð að sigra í síðustu fjórum deildarleikjum sínum. Glen Roeder, stjóri Newcastle, var æfur út í dómara leiksins fyrir að loka augunum fyrir því sem hann taldi augljósa vítaspyrnu.

Arsenal er ennþá með eins stigs forskot á Bolton en á auk þess tvo leiki til góða. Liðin mætast innbyrðis um næstu helgi í leik sem mun ráða miklu um framhaldið. Aðspurður um hvort hann teldi sína menn geta hangið á fjórða sætinu til loka tímabils sagðist Wenger sannfærður um að svo væri.

“Jafntefli Bolton í dag þýðir að við höfum enn gott forskot svo að já, ég tel að staða okkar sé góð. Við ráðum sjálfir örlögum okkar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla þá sem koma að félaginu að ná þessu Meistaradeildarsæti. Við erum vanir að vera með í þeirri keppni og langar að vera það áfram,” sagði Wenger eftir leikinn.

“Eftir þrjá tapleiki í röð var það mikilvægt fyrir okkur að tapa ekki aftur, svo að heilt yfir er ég nokkuð sáttur við annað stigið. Það gæti reynst okkur mikilvægt. Annars var þetta leikur tveggja góðra varna og tækifærin voru ekki mörg,” sagði Wenger.

Kollegi hans hjá Newcastle, Glenn Roeder, var æfur út í Howard Webb, dómara leiksins, fyrir að dæma ekki vítaspyrnu undir lokin þegar Abou Diaby hindraði Oguchi Onyewu í að komast til boltans með aðferðum sem Roeder sagði að ættu frekar heima í ruðningsleik.

“Þetta var tækling sem við sjáum í ruðningi. Tel ég að við hefðum hugsanlega átt að fá víti? Það er eins vægt til orða tekið og hugsast gæti. Þetta var svo augljós vítaspyrna að það er engu líkt,” sagði Roeder hinn fúlasti.

Það þarf kjark og hugrekki til að flauta vítaspyrnu, ég geri mér grein fyrir því. En dómarar verða að geta tekið á svona brotum. Svona má ekki gera í fótbolta,” bætti Roeder við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×