Fótbolti

Betra seint en aldrei

Fernando Hierro
Fernando Hierro Getty Images

Spánverjar og Danir mætast í undankeppni Evrópumóts landsliða á laugardag. Í nóvember 1993 unnu Spánverjar 1-0 í Sevilla og tryggðu sér þar með keppnisrétt á HM í Bandaríkjunum árið eftir. Danir sem þá voru Evrópumeistarar sátu eftir með sárt ennið því Írar náðu 2. sætinu. Núna 14 árum síðar viðurkennir spænski harðjaxlinn Fernando Hierro að Spánverjar hafi ekki haft farið eftir settum reglum.

Hierro skoraði sigurmarkið á 64. mínútu en hinn smávaxni Jose Maria Bakero hindraði markvörð Dana, Peter Schmeichel. Seinna í leiknum braut Hierro á Dananum Jes Høgh í vítateignum en dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu. Danir léku einum fleiri í 80 mínútur því Andoni Zubizarreta markverði var vísað af velli í byrjun þegar hann braut á Michael Laudrup.

Nú hefur Fernando Hierro beðið Schmeichel afsökunar. Hierro segir í samtali við danska blaðið BT að Spánverjar hafi í nokkurn tíma velt því fyrir sér að senda Schmeichel vínflösku með afsökunarbeiðni en ekkert hafi orðið af því. "Þú mátt skila kveðju til Schmeichels, betra er seint en aldrei", hefur blaðamaður BT eftir járnkarlinum Fernando Hierro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×