Innlent

Uppskerubrestur hjá kartöflubændum

Uppskerubrestur blasir við kartöflubændum. Grös eru fallin og er búist við að uppskeran verði aðeins helmingur venjulegs árs. Kartöflubændur í Þykkvabænum vöknuðu upp við vondan draum í morgun í því enn hafði næturfrostið sagt til sín og grösin eru öll fallin í görðunum. Þetta er mikið áfall fyrir bændur því hlýindin í sumar höfðu vissulega gefið fyrirheit um góða uppskeru þótt vætan hafi verið í minna lagi.

Ljóst er að bændur á þessum slóðum verða fyrir miklu tjóni. Að sögn Karls Rúnars Ólafssonar, kartöflubónda í Þykkvabænum, höfðu bændur vonast eftir góðri uppskeru en raunin er allt önnur. Kartöflurnar eru óvenju smáar og uppskeran einungis helmingurinn af því sem hún er í meðalári.

Kartöflubændur höfðu vonast eftir vexti lengra fram á haustið en segja má að grösin hafi fallið þremur til fjórum vikum fyrr en eðlilegt getur talist. Fyrsta næturfrostið kom um verslunarmannahelgi.

Kartöflubændur munu hefja vinnu af krafti við upptöku um eða upp úr næstu helgi. Karl Rúnar var þó önnum kafinn við að pakka kartöflunum í dag fyrir Bónus í Reykjavík.



Að öllum líkindum munu Íslendingar fá erlendar kartöflur á diskana í vetur, miklu fyrr en venjulega því á Eyjafjarðarsvæðinu kom líka næturfrost á dögunum, en það hefur ekki gerst svo snemma í mörg ár. Töluvert féll þá af grösum, sérstaklega innst í firðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×