Innlent

Lettarnir hjá GT flestir farnir úr landi

Lettarnir þrettán, sem leituðu til Afls starfsgreinafélags, eru komnir heim, að sögn Sverris Albertssonar framkvæmdastjóra.
Lettarnir þrettán, sem leituðu til Afls starfsgreinafélags, eru komnir heim, að sögn Sverris Albertssonar framkvæmdastjóra.

Vinnumarkaður Lettarnir þrettán hjá starfsmannaleigunni Nordic Construction Line, NCL, sem unnu fyrir GT verktaka og Arnarfell við Hraunaveitu, eru farnir úr landi allir nema einn. Þessi eini er kominn til Reykjavíkur og búinn að finna sér vinnu þar.

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls starfsgreinafélags, segir að NCL hafi keypt flugfar fyrir mennina úr landi og gistingu fyrir þá í Keflavík en þeir fóru úr landi strax eftir að yfirheyrslum lauk fyrir Héraðsdómi Austurlands í vikunni.

Afl hafi sent með þeim litháískan túlk til Keflavíkur til að koma í veg fyrir hættu á því að mennirnir drægju framburð sinn til baka en þeir hafi verið blankir og óþreyjufullir að komast heim til sín. Litháinn sé fyrrverandi lögreglumaður sem hafi jafnframt túlkað fyrir þá.

Nokkuð bar á ólgu á Austurlandi þegar mál Lettanna var sem mest í umræðunni. Sverrir segist hafa fengið talsvert af símtölum frá erlendu launafólki og íslenskum samstarfsmönnum og tvö til þrjú mál séu til skoðunar.

Kæra Afls á hendur NCL og GT verktökum er nú til umfjöllunar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Auður Ýr Steinarsdóttir fulltrúi segir að málið sé þar á frumstigi. Rannsóknin gangi út á það hvort peninga hafi vantað í launaumslög mannanna og hvort þeir hafi hugsanlega verið þvingaðir til að skrifa undir pappíra.

Starfsmenn og starfsmannafélag GT verktaka ehf., hafa lýst yfir stuðningi við fyrirtækið og stjórnendur þess og segja ólíðandi að sitja undir ósanngjarnri og hatrammri aðför að eigendum fyrirtækisins. Almennir starfmenn og fjölskyldur þeirra hafi þurft að þola dylgjur, hrakyrði og jafnvel hótanir frá ókunnugu fólki og því áskilji þeir sér allan rétt til skaðabóta vegna aðfarar að starfsöryggi þeirra og heiðri.

Í vitnaleiðslum yfir mönnunum fyrir Héraðsdómi Austurlands bar mönnunum saman um að það hefði vantað í launaumslögin miðað við þær kvittanir sem þeir hefðu skrifað undir. Einhverjir þeirra hefðu staðfest móttöku með fyrirvara um að þetta væri ekki sama upphæð og þeir hefðu móttekið.

Tveir túlkar höfðu milligöngu um samskipti GT verktaka við Lettana. Annar túlkanna er farinn úr landi en hinn hefur verið úrskurðaður í farbann. ghs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×