Innlent

Stóra kálgarðránið upplýst

Stóra kálgarðránið á Akureyri hefur verið upplýst. Frétt Stöðvar 2 um málið í gærkvöld skipti þar sköpum.

Karen Malmquist, forvarnafulltrúi á Akureyri, sem lenti í því að grímuklædd ungmenni fóru ránshendi um kálgarð hennar, auk þess að skemma uppskeruna, lýsti því í frétt okkar í gær hvernig fjölskyldan varð fyrir tilfinningalegu tjóni þegar ráðist var á matjurtagarð fjölskyldunnar. Ekki síst hafði skemmdarverkið og stuldurinn áhrif á börn hennar sem höfðu unnið ötullega að góðri uppskeru í sumar.

Fimm mínútum eftir að frétt Stöðvar 2 um málið fór í loftið í gær, segir Karen að hún hafi fengið heimsókn. Sakbitinn unglingur hafi þá játað samsekt sína í kálgarðsráninu með nokkrum jafnöldrum sínum, og hafi hann verið fullur iðrunar. Nú er búið að skila fjölskyldunni í Helgamagrastræti 5 fullum poka af gulrótum og kartöflum sem stolið var úr garðinum þeirra og segir Karen að batnandi börnum sé best að lifa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×