Innlent

Bæjarstjórar sáttir við mótvægisaðgerðir en vilja meira

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar. MYND/ÓPF

Fella þarf niður veiðileyfagjald og styrkja frekar bæjar- og hafnarsjóði til að auka mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Þetta kemur fram í máli tveggja bæjarstjóra. Þeir fagna báðir aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

„Þetta eru skref í rétta átt og það er myndugleiki yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, í samtali við Vísi. „Ég hefði hins vegar viljað sjá tillögur þar sem dregið er úr skattlagningu á sjávarútvegi. Til dæmis með því fella niður veiðileyfagjald."

Ríkisstjórnin kynnti í gær mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Samkvæmt þeim verður tíu og hálfum milljarði varið til aðgerða á næstu tveimur árum. Verkefnum sem nema fjórum milljörðum króna verður flýtt og þá verður ráðist í aðgerðir upp á fjóra og hálfa millljarð króna sem eru alls kyns vísindaverkefni.

 

Þarf að styrkja betur bæjar- og hafnarsjóði
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagðist í samtali við Vísi fagna aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hann segir þó að enn eigi eftir að skýra nákvæmlega hvernig fjármununum verður skipt milli sveitarfélaga og landshluta. „Ég tel að þetta séu jákvæðar aðgerðir og er ánægður með þetta. Hins vegar liggur enn ekki fyrir hvernig þessir fjármunir skiptast á milli sveitarfélaga. Ég lít svo á að við þurfum að sjá hvernig þetta kemur út og endurskoða aðgerðirnar eftir einhvern tíma."

Þá segir Halldór að hann hefði viljað sjá meiri fjármuni til handa bæjar- og hafnarsjóðum á landsbyggðinni. „Ég tel að þessar 750 milljónir króna sem á að setja í bæjar- og hafnarsjóði ekki nægja að fullu. Að mínu mati er styrking þessara sjóða besta mótvægisaðgerðin. Eins og staðan er núna munu hafnarsjóðir verða fyrir miklu tapi. Ef hægt væri að lækka hafnargjöld myndi það skila sér til útgerðarfyrirtækja því vinnur styrking þeirra óbeint með útgerðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×