Bíó og sjónvarp

Dönsku fánaberarnir

Hirðleikari Cronenbergs Viggo Mortensen er á góðri leið með að verða eitt stærsta nafnið í Hollywood.
Hirðleikari Cronenbergs Viggo Mortensen er á góðri leið með að verða eitt stærsta nafnið í Hollywood.
Danskar kvikmyndir hafa yfirleitt átt upp á pallborðið hjá kvikmyndaunnendum um allan heim og danskir leikstjórar eru eftirsóttir í Hollywood. Og nú eru danskir leikarar einnig að hasla sér völl þar vestra.

Allt frá því að Brigitte Nielsen nuddaði axlirnar á Ivan Drago og sprautaði í hann hormónum í Rocky IV hafa danskar kvikmyndastjörnur öðru hvoru skotið upp kollinum á alþjóðasviðinu. Brigitte fylgdi velgengninni eftir með hlutverki tálkvendisins í Beverly Hills Cop II en eftir það var það helst risavaxni barmurinn sem heillaði kvikmyndagerðarmennina frekar en túlkunarhæfileikar hennar á hvíta sviðinu.

Það segir kannski alla söguna að hún er eflaust ein fárra leikkvenna sem hefur uppskorið fjórar Razzie-tilnefningar og hlotið ein. Verðlaunin eru veitt þeim sem standa sig hvað verst hverju sinni.

Danska stjarnan?
Illmennið í ond Mad Mikkelsen getur því miður ekki snúið aftur sem Le Chiffre en Hollywood bíður eftir því að hann losni við heimþrána.
Dönsk kvikmyndagerð er ein sú elsta í heiminum og því er ekki að undra að danskir leikhæfileikar séu eftirsóttir. Bæði leikstjórar og leikarar kunna þessa list hvað best á Norðurlöndunum og því eru peningamennirnir ekki að taka mikla áhættu með því að Dana til liðs við sig.

En kannski er það kaldhæðni örlaganna að helsta kvikmyndastjarna Dana er líkt og Ólafur Elíasson hjá okkur Íslendingum. Viggo Mortensen er öllu jafnan sagður „danskur" í blöðunum í Danmörku þrátt fyrir að hafa að mestu leyti alið manninn í New York og stigið þar sín fyrstu skref á leikarasviðinu. Viggo kom þó við á landinu flata á sínum yngri árum og hefur ætíð haldið mikilli tryggð við heimalandið þegar kemur að kynningarferðum fyrir myndir sína og sótti höfuðborgina Kaupmannahöfn heim þegar Hringadróttinssaga sigraði heimsbyggðina.

Viggo er tvímælalaust einn af stærstu leikurum kvikmyndaborgarinnar og er á góðri leið með að verða hirðleikari Davids Cronenberg. Hann var í aðalhlutverki í hinni stórkostlegu History of Violence og gegnir sömu rullu í kvikmyndinni Eastern Promises sem frumsýnd verður um helgina.

Heimakærir en eftirsóttirViggo er þó ekki eini fánaberi Dana í Hollywood. Danska þjóðin kallaði meðal annars síðustu James Bond-myndina, Casino Royal, „danska Bond-mynd" og þótt þjóðarstoltið hefði að einhverju leyti hlaupið með þá í gönur þá var þetta engu að síður ekki svo fjarri sannleikanum.

Illmennið Le Chiffre var í höndunum á Mads Mikkelsen og Mr. White var leikinn af öðrum, dönskum leikara að nafni Jesper Christensen. Honum er spáð álíka miklum frama og Chris Cooper, enda ekki ólíkir í útliti. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur kannast eflaust best við hann úr hinum ótrúlega vinsælu þáttum Krónikunni. Ólíkt Mikkelsen fær Christensen að endurtaka leikinn í Bond 22 þar sem hann verður, enn sem fyrr, í hlutverki Mr. White.

Mikkelsen hefur verið feikilega eftirsóttur af stóru kvikmyndafyrirtækjunum þar vestra en látið sér fátt um finnast. Hann er mikill fjölskyldumaður og kann best við sig á búgarðinum sínum langt úti í sveit. Hann hefur hins vegar látið til leiðast þegar honum hefur þótt vanta smá aur í kassann og lék meðal annars í King Arthur á móti ungstirninu Keiru Knightley, Clive Owen og Ray Winstone.

Fulltrúi dönsku kvenþjóðarinnar er síðan Connie Nielsen sem fékk það erfiða hlutverk að vera Lucille á móti ólíkindartólinu Russell Crowe í Óskarsverðlaunamyndinni Gladiator. Nielsen birtist síðan af og til í stórmyndum í Bandaríkjunum og lék í dönsku kvikmyndinni Brødre eftir Susanne Bier sem nú á að fara að endurgera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×