Innlent

Forstjóri gekk á dyr hjá Ratsjárstofnun

Ólafur Örn Haraldsson, forstjóri Ratsjárstofnunar, hefur ákveðið að láta af störfum og hefur kvatt starfsfólk stofnunarinnar. Ólafur hefur ekki tilkynnt ákvörðun sína til utanríkisráðuneytisins, sem fer með yfirstjórn stofnunarinnar.

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefur reynt að hafa samband við Ólaf vegna ákvörðunar hans en án árangurs.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fundaði Ólafur með starfsmönnum sínum í vikunni til að greina þeim frá ákvörðun sinni; öðrum sendi hann tölvupóst eða kvaddi símleiðis. Grétar segist ekki hafa séð tölvupóstinn en heyrt af honum. „Ég er að reyna ná í Ólaf til að fá að vita hvað liggur fyrir hjá honum, þangað til get ég ekki tjáð mig mikið um málið."

Gagnger endurskipulagning stendur nú yfir á starfsemi Ratsjárstofnunar sem starfshópur skipaður sérfræðingum utanríkisráðuneytisins vinnur að. Öllum 47 starfsmönnum stofnunarinnar var sagt upp störfum um miðjan ágúst. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins voru laun starfsmanna Ratsjárstofnunar hærri en annarra opinberra starfsmanna og var þeim sagt upp til að ná niður kostnaði. Eftir uppsögn starfsfólksins vildi Ólafur engar upplýsingar gefa um laun starfsmanna eða hvort starfsmenn sem yrðu endurráðnir þyrftu að taka á sig launalækkanir.

Grétar segist ekki geta svarað fyrir það hvort Ólafur verði endurráðinn þegar endurskipulagningu er lokið. Undanfarna daga hefur starfsemi aðalskrifstofu Ratsjárstofnunar í Síðumúla í Reykjavík verið flutt í starfsstöð stofnunarinnar á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þeirri sameiningu er lokið. Grétar segist vona að hann geti leitað ráða hjá Ólafi vegna annarra breytinga á starfsemi Ratsjárstofnunar sem fram undan eru.

Ekki náðist í Ólaf Örn við vinnslu fréttarinnar. - shá / - kdk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×