Innlent

Rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæði felur ekki í sér leyfi til borana

Landsvirkjun stefnir að því að hefja boranir á svæðinu í haust.
Landsvirkjun stefnir að því að hefja boranir á svæðinu í haust. MYND/365

Rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæði felur ekki í sér leyfi til rannsóknarframkvæmda á svæðinu hvort sem er yfirborðsrannsóknir eða boranir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá iðnaðarráðuneytinu. Ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum gilda um allar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa þrátt fyrir útgáfu rannsóknarleyfis.

Í yfirlýsingu iðnaðarráðuneytisins kemur fram að með útgáfu rannsóknarleyfis á Gjástykkissvæði í grennd við Mývatn hafi ekki verið gefið leyfi til rannsóknaframkvæmda á svæðinu. Þá segir ennfremur að lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi hvorki verið ætlað að taka með heildstæðum hætti á umhverfismálum, náttúruvernd og skipulags- og byggingarlögum né hrófla við eða víkja úr vegi þeirri löggjöf. Framkvæmdir rannsóknarleyfishafi í kjölfar útgáfu rannsóknarleyfis séu því háðar leyfum þar til bærra yfirvalda og lúta ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum.

Landvernd og Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi óskuðu í síðustu viku eftir því við umhverfisnefnd og iðnaðarefnd Alþingis að opinber rannsókn verði gerð á leyfi til jarðhitarannsókna á Gjástykkissvæðinu. Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, gaf Landsvirkjun leyfi til rannsókna tveimur dögum fyrir síðustu kosningar. Landsvirkjun stefnir að því að hefja boranir á svæðinu í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×