Innlent

Óhugnanlegt myndband fer um netið

Myndband sem vakið hefur óhug fólks gengur nú manna á milli á netinu. Óljóst er hvort myndbandið er leikið eða ekki en það sýnir karlmann nauðga konu. Myndbönd af þessu tagi hvetja menn ekki til ofbeldisverka segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.

Myndbandið er um 18 mínútur á lengd og er rússneskt að uppruna. Það má meðal annars nálgast á íslenskum heimasíðum og þar er það merkt sem klámmyndband. Á myndbandinu má sjá karlmann taka konu með valdi og neyða hana til samræðis við sig.

Ekki er ljóst hvort um leikið efni er að ræða en af umræðum um myndbandið sem skapast hafa á heimasíðum hér á landi má skilja að það sé í raun aukaatriði. Myndbandið vekur upp óhug hjá fólki.

Undanfarin misseri hefur umræðan um klám og ofbeldismyndbönd og tölvuleiki verið hávær. Nýleg skýrsla Stígamóta sýnir að æ fleiri leita til samtakanna en áður vegna nauðgana. Þá hafa tölvuleikir sem ganga út á að nauðga konum og börnum vakið upp spurnignar hvort efni af þessu tagi orsaki ofbeldisverk, sérstaklega hjá ungu fólki. Hvort hægt sé að tengja saman aukið aðgengi að ofbeldi og klámi og aukningu á ofbeldi og klámi í samfélaginu. Að mati afbrotasérfræðings er þó engin ástæða til að óttast að svo sé. Hann segir allar rannsóknir sýna að langflestir sem horfi á myndband af þessu tagi fyllast viðbjóði.

Rannsóknar hafa hins vegar sýnt að myndbönd af þessu tagi geti verið notuð sem afsökun fyrir afbrotamenn en þá aðeins þá sem hneigst hafi til ofbeldis áður en þeir horfðu á slíkt myndband.

Helgi segir það ekki endilega vera ofbeldismenn sem setji svona myndbönd á netið heldur sé fólk frekar verið að reyna að ná athygli eða athuga hversu langt hægt sé að ganga.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×