Innlent

Fastur í bifreiðinni í hálftíma

Það mátti varla tæpara standa þegar ökumanni bílsins var bjargað úr ískaldri ánni.
Það mátti varla tæpara standa þegar ökumanni bílsins var bjargað úr ískaldri ánni.
Karlmaður á nítjánda aldursári bjargaðist úr bráðum lífsháska í gær eftir að bifreið hans hafði hafnað úti í Ölfusá seint á þriðjudagskvöld.

Manninum varð það til happs að bíllinn staðnæmdist á grynningu í ánni og fór því ekki nema á hálft kaf. Að sögn lögreglunnar á Selfossi fékk hún tilkynningu um slysið á ellefta tímanum. Á þeim tíma lá ekki fyrir hversu margir voru í bifreiðinni og því var allt tiltækt björgunarlið kallað út.

Maðurinn var búinn að sitja í bílnum í um hálftíma þegar björgunarsveitarmenn á slöngubáti komu honum til hjálpar. Hann var þá nánast meðvitundarlaus og mjög kaldur. Ekki gekk áfallalaust að koma honum á land því að það drapst á báðum utanborðsmótorum björgunarbátsins með þeim afleiðingum að hann rak niður fyrir brúna og stöðvaðist á sandrifi. Þaðan var báturinn svo dreginn í land.

Maðurinn var fluttur með hraði á slysadeild Landspítalans í Fossvogi en að sögn vakthafandi læknis þar hlaut hann ekki alvarlega áverka og átti að útskrifa hann þaðan í gær.

Talið er að bíll mannsins hafi runnið til í hálku með ofangreindum afleiðingum. Engin vegrið eru við ána á þessum stað og slys hafa orðið þar áður. Bíllinn var hífður upp úr ánni síðdegis í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×