Ekið var á tvær konur sem voru á göngu á Miklubraut í gærmorgun. Fyrra óhappið varð rétt fyrir átta er kona var að fara yfir götu á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hún var flutt á slysadeild með áverka, sem reyndust ekki vera alvarlegir.
Seinna óhappið var við Reykjahlíð um hálf níu, um hálftíma eftir fyrra óhappið. Konan var þá á göngu yfir gangbraut við Miklatún. Hún var flutt á slysadeild Landspítalans og reyndist nokkuð marin og tognuð, en án alvarlega áverka. Hluta Miklubrautar var lokað vegna slysanna tímabundið.