Innlent

Ker sýknað af skaðabótakröfu tengdri samráði

MYND/Heiða
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Ker af kröfu Sigurðar Hreinssonar frá Húsavík um bætur vegna þess skaða sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna samráðs stóru olíufélaganna. Þetta er fyrsti dómur sem fellur í máli tengdu samráði olíufélaganna.

Sigurður höfðaði málið og fór fram á það að Ker hf., sem er fyrrverandi eigandi Olíufélagsins Esso, greiddi sér um 180 þúsund krónur í bætur vegna þess að hann hefði þurft að greiða of hátt verð fyrir bensín sem hann keypti af Esso á árunum 1995 til 2001. Málið höfðaði hann eftir að Neytendasamtökin höfðu bent fólki á að sækja rétt sinn gagnvart félögunum.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að skort hafi verulega á stefnandi hafi sýnt fram á tjón sitt með tiltækum aðferðum og gögnum, svo sem með beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Var því Ker hf. sýknað af kröfum hans og sömuleiðis varakröfum og þrautavarakröfum sem hann lagði fram.

 

Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Sigurðar, sagði í samtali við fréttastofu að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Málið er talið hafa fordæmisgildi enda hefur Lögfræðistofa Reykjavíkur, þar sem Steinar vinnur, um 150 mál á sínum snærum frá einstaklingum sem telja að brotið hafi verið á sér með samráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×