Innlent

Allt að 300 þúsund króna sekt fyrir hraðakstur

MYND/Hilmar

Sektir vegna umferðarlagabrota hækka umtalsvert og viðurlög við brotum á reglum um aksturs- og hvíldartíma varða nú bæði sekt og punkti eða punktum í ökuferilsskrá samkvæmt tveimur nýjum reglugerðum sem taka gildi á föstudag.

Samkvæmt annarri reglugerðinni geta sektir vegna umferðalagabrota orðið allt að 300 þúsund krónur ef ekið er á yfir 170 kílómetra hraða en þá er gert ráð fyrir að menn verði ákærðir og málið í framhaldinu tekið fyrir hjá dómara.

Fram kemur á vef samgönguráðuneytisins að sé ekið á 46 til 50 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km skal sektin vera 15 þúsund krónur en 50 þúsund sé ekið á 71-75 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km. Skal ökumaður jafnframt sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði fyrir slíkt brot.

Ef ekið er á 101 til 110 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km skal sektarfjárhæð vera 15 þúsund krónur, 60 þúsund krónur ef hraðinn er orðinn 131 til 140 km og beita skal 110 þúsund króna sekt og þriggja mánaða ökuleyfissviptingu sé ökuhraðinn orðinn 161 til 170 km þar sem hámarkshraðinn er 90 km. Dæmin eru tilfærð í töflu í viðauka I í reglugerðinni og gert ráð fyrir að málum ökumanna sem aka á allt að 170 km hraða megi ljúka með sekt.

Ef ekið er gegn rauðu ljósi eru skráðir 4 punktar og auk þess beitt 15 þúsund króna sekt, tveir punktar fyrir óhlýðni ökumanns við leiðbeiningum lögreglu og við því er einnig lögð 10 þúsund króna sekt, þrír punktar ef ekið er framúr rétt áður en komið er að gangbraut eða á henni og tveir punktar ef akstur umfram aksturstíma ökumanna flutninga- eða langferðabíla er 20 prósent. Síðastnefnda brotið varðar einnig 40 þúsund króna sekt fyrir ökumann og 60 þúsund króna sekt fyrir eiganda bíls.

Þá geta sektir vegna hleðslu ökutækja numið allt að 100 þúsund krónum ef ökumaður veldur hættu eða óþægindum við akstur undir brú, í göngum, undir rafmagns- eða símalínur og þess háttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×