Innlent

Ný flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll undirrituð

Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri, Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Ásgeir Eiríksson, sýslumaður í Keflavík, undirrita hina nýju áætlun.
Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri, Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Ásgeir Eiríksson, sýslumaður í Keflavík, undirrita hina nýju áætlun.

Forsvarsmenn almannavarna á Keflavíkurflugvelli og ríkislögreglustjóri undirrituðu í dag nýja og endurskoðaða flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll.

Áætlunin segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar á Reykjanesskaga en hana unnu almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, lögreglustjórarnir á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík, almannavarnanefndir Keflavíkurflugvallar, á Suðurnesjum og í Grindavík ásamt flugvallarstjóranum á Keflavíkurflugvelli.

Fram kemur í tilkynningu frá Keflavíkurflugvelli að gerð áætlunarinnar hafi tekið allangan tíma en hún er virkjuð þegar flugvél lýsir yfir viðbúnaðar- eða hættuástandi um borð eða flugvél brotlendir.

Virkjun er tvískipt, annarsvegar þegar um er að ræða flugvél með níu manns eða færri eru um borð og hins vegar þegar tíu eða fleiri eru um borð. Einnig er mögulegt að virkja áætlunina á hærra stiginu ef farmur flugvélar getur hugsanlega valdið almannahættu þó svo að níu manns eða færri séu um borð.

Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli hefur umsjón með reglubundnum æfingum tengdum áætluninni en allir þættir hennar skulu að minnsta kosti æfðir á tveggja ára fresti í samvinnu við aðgerðastjórn og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×