Innlent

Leita þarf samkomulags við landeigendur vegna þjóðgarðs

MYND/Egill Aðalsteinsson

Töluverður hluti af því landssvæði sem áætlað er að falli innan Vatnajökulsþjóðgarðs er í einkaeign og verður ekki hluti af þjóðgarðinum nema til komi samkomulag við landeigendur.

Ríkisstjórn samþykkti á fundi sínum í gær frumvarp Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og munu 15 þúsund ferkílómetrar, sem samsvarar um 15% af yfirborði Íslands, falla undir þjóðgarðinn og nær það til lands sem varðar stjórnsýslu átta sveitarfélaga.

En þótt frumvarpið sé metnaðarfullt þá er ljóst að af því verður ekki ef landeigendur ganga ekki að samningaborði við ríkið. Þess má geta að nokkrar af stærstu jörðum í einkaeign á landinu eiga landamæri að fyrirhuguðu umráðasvæði Vatnajökulsþjóðgarðsins.

Áætlað er að uppbygging þjóðgarðsins kosti 1.150 milljónir króna og er áætlað að sú uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árum eftir stofnun þjóðgarðsins. Fyrirhugað er að þjóðgarðurinn verði opnaður seint á árinu 2007 eða snemma árs 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×