Innlent

Tekist á um fjórðung líklegra þingsæta í dag

MYND/Stefán

Nokkrir sitjandi þingmenn, bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, eru taldir í verulegri fallhættu í prófkjörum sem fram fara í dag. Þá má telja nokkuð víst að prófkjörin skili nýliðum inn í örugg sæti á framboðslistum, en alls er tekist á um fjórðung líklegra þingsæta á næsta Alþingi Íslendinga.

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er það stærsta sem fram fer í dag en þar hefur flokkurinn alls átta þingsæti. Auk átta alþingismanna, sem sækjast eftir endurkjöri, keppa sjö aðrir einstaklingar um sætin eftirsóttu og er það mál manna að vel gæti farið svo að nokkrir þeirra kæmust upp fyrir sitjandi þingmenn og ýttu þeim út. Þykir ekki fjarri lagi að áætla að jafnvel tveir til þrír þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík yrðu í fallsætum þegar tölur fara að birtast í kvöld.

Sama gæti gerst hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi en þar er einnig hart sótt að sitjandi þingmönnum. Sérstaklega bíða menn spenntir að sjá hvort Árna Johnsen takist að skáka einhverjum þeirra út, en flokkurinn á þrjá þingmenn í kjördæminu en ákvörðun Árna M. Mathiesen um að sækjst eftir forystusætinu setur aðra væntanlega neðar.

Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi er með fimm þingsæti en aðeins þrír sitjandi þingmenn sækjast eftir þeim. Þar er því nokkuð víst að nýliðar koma til með að skipa sæti sem teljast nokkuð örugg þingsæti. Nýjustu fréttir af prófkjörunum verða birtar í fréttum Stöðar 2 klukkan hálfsjö í kvöld og hér á fréttavefnum visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×