Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni á sex ára tímabili, eða þegar hún var átta ára og þar til hún var fjórtán ára. Með þessu staðfesti rétturinn dóm hérðasdóms.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa sleikt kynfæri stúlkunnar og sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar þegar hún var á aldrinum 8 til 9 ára og farið í nokkur skipti höndum um brjóst, rass og kynfæri stúlkunnar innan klæða þegar hún var á sama aldri. Þá var hann ákærður fyrir að hafa, þegar hún var á aldrinum 10 til 14 ára, haft margsinnsis samræði við hana og sýnt henni klámmyndir í tölvu.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skýrslur mannsins hjá lögreglu og fyrir dómi séu um margt misvísandi en að framburður stúlkunnari trúverðugur og þá hafi sönnunargögn rennt stoðum undir frásögn hennar.

Hins vegar segir dómurinn að stúlkan hafi ekki glöggt tímaskyn og var í ljósi framburðar hennar ekki talið sannað að hann hefði haft samræði við hana eða látið hana fróa sér fyrr en stúlkan var orðin 12 ára. Þá var ekki talið sannað að hann hefði sýnt stúlkunni klámmyndir fyrr en hún var orðin 14 ára.

Var hann því dæmdur til fimm ára fangelsisvistar og til að greiða dóttur sinni tvær milljónir í miskabætur. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, tæpar 1400 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×