Innlent

Margir karlar sektaðir fyrir að tala í farsíma við akstur

MYND/GVA

Lögreglan í Reykjavík telur sig hafa sýnt fram á það að karlar tali mikið í síma ekki síður en konur. Í frétt á vef lögreglunnar kemur fram að við umferðareftirlit í Reykjavík í gær hafi á annan tug ökumanna verði stöðvaður þar sem hann talaði í farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað. Stærstur hluti þeirra, eða liðlega 90 prósent, voru karlmenn.

Lögregla stöðvaði einnig fjölmarga ökumenn vegna þess að þeir voru ekki með öryggisbelti og voru karlmenn líka í miklum meirihluta hinna brotlegu eða 75 prósent. Lögreglan í Reykjavík er í þessum mánuði með átak í gangi þar sem sjónum er beint að bílbeltanotkun og notkun handfrjáls búnaðar.

Þá var á annan tug ökumanna tekinn fyrir að aka gegn rauðu ljósi en þar voru konur í meirihluta, tæplega 60 prósent. Athygli vekur að það voru einkum konur yngri en 30 ára sem þar áttu hlut að máli, segir á vef lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×